29. fundur skipulagsnefndar I/II

 • Skipulagsnefnd
 • 15. desember 2020

Fundargerð

29. fundur Skipulagsnefndar haldinn í Skjólbrekku,

15. desember 2020, kl. 13:10.

 

Fundinn sátu:

Selma Ásmundsdóttir , Arnþrúður Dagsdóttir, Birgir Steingrímsson, Margrét Halla Lúðvíksdóttir, Atli Steinn Sveinbjörnsson skipulagsfulltrúi og Helga Sveinbjörnsdóttir byggingarfulltrúi.

Fundargerð ritaði:  Atli Steinn Sveinbjörnsson, skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. Ósk um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi Voga 1 - 2002003
2. Skútustaðahreppur- Gerð deiliskipulags fyrir Höfða - 1810020
3. Þórólfshvoll skilgreining í íbúðarhús - 2012012
4. Fundadagskrá 2021 - 2012013
5. Skýrsla skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa - 1909022

 

1. Ósk um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi Voga 1 - 2002003

Tekin fyrir að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1.
Deiliskipulagsbreytingin snýr að því að bætt verði við lóð fyrir íbúðarhús við núverandi frístundalóðasvæði og stærð frístundalóðarinnar F5 minnkar.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti þann 11. mars 2020 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Voga 1 skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsbreyting fer fram í kjölfar óverulegrar breytingar á aðalskipulagi sem var staðfest þann 30. september 2020
Tillagan var auglýst frá og með fimmtudeginum 22. október til og með föstudeginum 4. desember 2020.

Athugasemdir/umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Umhverfisstofnun, Elínu Kristjánsdóttur, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skógræktinni.

Umhverfisstofnun:
1. Í greinargerð gildandi deiliskipulags kemur fram að tillagan muni raska hrauni og birkiskógi, en mikilvægt sé að halda raski í lágmarki. Í greinargerð breytingarinnar kemur fram að reynt verði að koma byggingareit í hraunbolla.
Umhverfisstofnun bendir á að hraunið að skipulagssvæðinu fellur undir a. lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Auk þess vill stofnuni á að birki fellur undir b. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en Skógræktin hefur það hlutverk að skilgreina og kortleggja náttúrulega birkiskóga sem falla undir 61. gr. náttúruverndarlaga.
1. Svar skipulagsnefndar:
Leitað var umsagna Skógræktarinnar. Tekið verður tillit til umsagna Skógræktarinnar og samráð haft varðandi mótvægisaðgerðir vegna rasks sem framkvæmdir á grunni deiliskipulagsins munu valda.

2. Í 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra, sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um náttúruvernd er með orðalaginu „brýn nauðsyn“ lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram í tillögunni hvaða almannahagsmunir réttlæta röskun á hrauni og birki og að tillagan fylgi ákvæðum laganna.
Umhverfisstofnun bendir á að þar sem að tillagan gerir ráð fyrir röskun á hrauni þarf að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.
2. Svar skipulagsnefndar:
Í breytingu sem gerð var á aðalskipulagi Skútustaðahrepps að undanfara deiliskipulagsbreytingarinnar er bent á að búseta hafi verið í Mývatnssveit frá alda öðli af ,,brýnni nauðsyn’’. Öll byggð í Vogum er á hrauni og engin mannvirki verða gerð án þess að þau hafi áhrif á hraunið og umhverfi þess.
Framkvæmdaraðili er frá bænum Vogar 1 í Mývatnssveit og hefur áhuga á að byggja í þeirra landi. Eignaland Voga 1 er nánast allt eldhraun og því ekki val um annan kost en að byggja innan eldhrauns.
Á gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir frístundabyggð á svæðinu. Tillaga að breytingu á gildandi skipulagi gerir ráð fyrir einni húsbyggingu sem er lítilvæg breyting á skipulagi sem gerir ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum.

3. Stofnunin bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðri framkvæmd. Við matið skal litið til verndarmarkmiða 2. gr. og 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, auk þess sem tekið skal mið af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 3. og 4. mgr. 61. gr. laganna.
Ákveði leyfisveitandi að veita leyfi þrátt fyrir framangreint skal leyfisveitandi, með vísan í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu. Einnig skal gera grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við. Þá skal afrit af útgefnu leyfi sent stofnuninni, sbr. 6. mgr. ákvæðisins.
Þess má einnig geta að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.
3. Svar skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd leggur til að í greinargerð verði sett þau skilyrði að rask á eldhrauni utan fyrirhugaðra byggingar og vegs verði í lágmarki. Skilyrði leyfisveitinga á grunni skipulagsins verða á þann hátt að raskað land verði mótað sem best að óröskuðu landi og að til mótvægis verði grætt upp með sambærilegum gróðri og nú þegar er á svæðinu. Einnig skal nýta þann gróður sem þarf að fjarlægja til að setja í sár sem koma vegna framkvæmdanna.


4. Áætlunin gerir ráð fyrir röskun á birkiskógi, en ekki kemur fram hver áhrif breytingartillögunnar er á skóginn. Umhverfisstofnun vekja athygli á að markmið laga nr. 33/2019 um skóga og skógrækt, er að vernda náttúruskóga landsins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Náttúruskógur er skilgreindur skv. lögunum þar sem land, a.m.k. 0,5 ha að flatarmáli, þar sem sjálfsánar, innlendar trjátegundir, þ.e. ilmbjörk, reyniviður, blæösp, gulvíðir eða loðvíðir, eru ríkjandi og ná a.m.k. tveggja metra hæð fullvaxnar og a.m.k. 10% krónuþekju.
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram í tillögunni hvernig tillaganna uppfyllir ákvæði laganna.
4. Svar skipulagsnefndar:
Framkvæmdir sem tillaga að deiliskipulagsbreytingu gerir ráð fyrir munu hafa lágmarks áhrif á þann gróskumikla birkiskóg sem dafnar í hrauninu umhverfis svæðið. Fyrirhuguð húsbygging er staðsett í hraunbolla þar sem minna er um birkiskóg. Leyfisveitingar á grunni deiliskipulagsins munu fela í sér skilyrði um mótvægisaðgerðir vegna þeirra áhrifa sem framkvæmdir munu hafa á birkiskóginn.

Elín Kristjánsdóttir:
1. Í aðalskipulagi Skútustaðahrepps fyrir árin 2011-2023 er í kafla 4.12.4 á bls. 41, (viðhengi 3) m.a. einkum litið til þess við landskipti og fyrirhugaða uppbyggingu.
- Að vegakerfi á jörðinni sé einfallt og tengingum við vega- og þjónustukerfi sveitarfélagins ekki fjölgað.
- Ekki verði blandað í nábýli frístundabyggð og íbúðabyggð enda heilsársbúseta óheimil á frístundasvæðum skv. landslögum.
Í kafla 4.13, „svæði fyrir frístundabyggð“ á bls. 46 (viðhengi 4) stendur m.a. í 3. mgr. Að leitast eigi við að samnýta aðkeyrslu frá þjóðvegi.
Ekki er gert ráð fyrir í aðalskipulagi Skútustaðahrepps að nýjir vegir verði lagðir í sveitarfélaginu í þeim tilfellum þar sem til staðar eru vegir sem hægt er að samnýta.
1. Svar skipulagsnefndar:
Tillagan felur í sér lítilsháttar færslu á vegi við frístundalóðir F4 og F5.

2. Í núverandi deiliskipulagi Voga 1 gera eigendur jarðarinnar ráð fyrir því að loka núverandi aðkomuvegi til móts við aðkeyrslu að frístundahúsi F1(Viðhengi 2,5) og útbúa þess í stað bílastæði fyrir gistihús/hótel á tvæimur hæðum, merkt Þ9(Viðhengi nr.5 dags. 19. ágúst 2016) Í stað núverandi aðkomuvegar stefna eigendur Voga 1 á að leggja nýjan veg inná svæðið frá þjóðvegi nr. 848, inni á lóð Bjarkar frá suðri til austurs á 150-170m. kafla yfir aðkeyrslu að sumarhúsi undirritaðrar. Samkvæmt GPS punktum, sem afmarka nýjan aðkomuveg, kemur hann til með að liggja u.þ.b. 25-30m. frá sumarhúsinu, þar sem hann er næst húsinu, og var eiganda sumarhússins staðsetning vegarins ekki kunn fyrr en á árinu 2020.
Eins og fram kemur í tölvupósti frá starfsmanni Teiknistofu Arkitekta frá 9 . nóvember sl. (2020) sem vann gerð deiliskipulagsins fyrir hönd eigenda Voga 1, yrði nákvæm úrfærsla vegslóðans útfærð á staðnum svo hann falli sem best að landi.
Nákæm staðsetning vegarins liggur því ekki fyrir í dag.
2. Svar skipulagsnefndar:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1 tekur ekki til fyrirhugaðra lokana á núverandi aðkomuvegi. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

3. Deiliskipulagið var upphaflega kynnt í skipulagsnefnd 18. maí 2015 og heimilaði sveitarstjórn Skútustaðahrepps eigendum Voga 1 að framkvæma skipulagið þann 27. maí 2015. Í skipulagsdrögum var m.a. gert ráð fyrir nýjum aðkomuvegi austur af þjóðvegi nr. 848 og var gert ráð fyrir að hann yrði lagður á milli frístundahúsa F1 og F2, sem eru í eigu Bjarkar, og sést að hluta til í drögum að deiliskipulagi dags. 4. Janúar 2016. (viðhengi 7)
Skipulagstillagan og forsendur hennar voru kynntar fyrir íbúum sveitarfélagsins og einhverjum öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi í Reykjahlíðarskóla 15. febrúar. Hafði undirrituð enga vitneskju um umræddan fund, sem má mögulega teljast eðlilegt þar sem fólk flettir almennt ekki heimasíðum sveitarfélaga og skoðar auglýsingar um fund á vegum þeirra. Eðlilegast og réttast hefði verið að láta þá fáu aðila vita, með bréfi eða tölvupósti frá framkvæmdaaðilum skipulagsins eða sveitarfélaginu, sem beinna hagsmuna hafa að gæta á og í kringum hið deiliskipulagða svæði.
Ný gögn voru send inn til sveitarstjórnar frá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf. þann 8. mars 2016 sem voru tekin til umfjöllunar í skipulagsnefnd 14. mars 2016. Í nýju gögnunum hafði uppdráttum og greinagerð atriða verið breytt frá því að almenna kynningin var haldin 15. febrúar í Reykjahlíðarskóla. Létu nefndarmenn í ljós áhyggjur af nýrri staðsetningu aðkomuvegarins, eða eins og segir orðrétt í fundargerðinni, „Nýr vegslóði sem tengist þjóðvegi sunnan við ristarhlið og fór áður á milli núverandi frístundahúsa í landi Bjarkar er nú ráðgerður sunnan við núverandi frístundahús á suðurjaðri landspildu í eigu Bjarkar“.
Lýsingin á staðsetningu vegarins gefur augljóslega til kynna að þarna sé fjallað um drög að aðkomuvegi sem lágu fyrir þann 4. janúar 2016, (viðhengi 8 ) en ekki tillögu sem dags. er 7. mars 2016 (viðhengi 9) enda er nýi aðkomuvegurinn teiknaður að mestu leiti austanmegin á lóð Bjarkar í tillögunni frá 7. mars en ekki á suðurjaðri landspildu í eigu Bjarkar, eins og lýst er í fundargerð skipulagsnefndar.
Lýsti skipulagsnefnd yfir ákveðnum efasemdum um staðsetningu á nýjum tengivegi en samþykkti þó að auglýsa tillöguna óbreytta að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Spurningin er, hvers vegna? Var ekki ástæða til að kanna málið frekar fyrst að það vöknuðu spurningar hjá nefndarmönnum?
Í fyrirspurnum til framkvæmdaraðila hefur komið fram að umræddar breytingar á staðsetningunni hafi talist minni háttar, og ekki hafi verið talið að kynna þyrfti breytingarnar sérstaklega fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.
Það þykir undirritaðri einkennileg afstaða í ljósi þess að núverandi staðsetning aðkomuvegarins liggur að stórum hluta inni á landi Bjarkar, sem hann gerði ekki í fyrri tillögum, og yfir innkeyrslu að sumarhúsi fjölskyldunnar eins og bent hefur verið á. Endanleg staðsetning aðkomuvegarins raskar umtalsvert friðhelgi undirritaðrar og fjölskyldu hennar til einkalífs í og við sumarhúsið með nýrri staðsetningu.
Sveitarstjórn fjallaði um breytta skipulagið á fundi sínum 31. mars 2016 og samþykkti að auglýsa það óbreytt án frekari aðgerða.
Þann 16. mars 2016, eða 15 dögum fyrir áðurnefndan fund sveitarstjórnar, sendi Jóhann Kristjánsson, einn af eigendum Bjarkar, þeim Leif og Ólöfu Hallgrímsbörnum tölvupóst þar sem hann telur upp nokkrar breytingar sem eigendur Bjarkar óskuðu eftir að gerðar yrðu á deiliskipulagstillögunum, m.a. á staðsetningu nýs aðkomuvegar. Fór Jóhann fram á að vegurinn yrði lagður yfir jörð Voga 1, sunnan við lóð Bjarkar, eins og skipulagsnefnd bókar í fundargerðina frá 14. mars 2016. Með öðrum orðum komu eigendur Bjarkar því skýrt til skila við eigendur Voga 1 þann 16. mars 2016 að nýr vegur yrði ekki lagður yfir lóð Bjarkar.
Má draga af því líkur, byggt á því sem á undan er rakið, að eigendur Voga 1 hafi ekki sætt sig við framkomnar tillögur Jóhanns þar sem megin-tilgangur með lagningu nýs aðkomuvegar var sá að aðskilja aðkomu að gistihúsum frá aðkomuvegi að frístundasvæðinu, eins og tiltekið er í skipulagsdrögum, fundargerðum skipulagsnefndar og í tölvupóstsamskiptum eigenda Voga 1 við eigendur Bjarkar.
Ekki verður heldur betur séð, ef haft er til hliðsjónar svar Bjarna Reykjalín, þáverandi skipulagsfulltrúa í Skútustaðahreppi við tölvupósti frá Jóhanni Kristjánssyni, dags. 3. janúar 2017, að innsendum tillögum eigenda Bjarkar hafi verið haldið leyndum og ekki komið til skila til skipulagsnefndar eða sveitarstjórnar áður en ákvörðun var tekin um að auglýsa deiliskipulagið á fundi sveitarstjórnar 31. mars 2016. Lætur Bjarni í ljós að innsendar athugasemdir Jóhanns séu of seint fram komnar, þó svo að þær hafi legið fyrir hjá eigendum Voga 1 frá 16. mars. 2016.
Í ljósi þess að sveitarstjórn hafði „framselt vald sitt“ til Ólafar Hallgrímsdóttur, skv. tölvupósti starfsmanns Teiknistofu Arkitekta, með því að veita henni heimild til að vera tengiliður skipulagsyfirvalda við hagsmunaaðila á svæðinu, er það augljóst brot á 40. gr. skipulagslaga að athugsemdum eigenda Bjarkar hafi ekki verið komið til skila við sveitarstjórn um leið og þær voru kunnugar. Allir aðilar deiliskipulagsins vissu og létu í ljós þá skoðun að sátt þyrfti að ríkja um nýja staðsetningu aðkomuvegarins og ræða þyrfti til hlýtar hvernig skipuleggja ætti vegslóðann áður en málinu yrði vísað áfram til afgreiðslu.
Um er að ræða aðal-aðkomu almennings inná svæðið í framtíðinni og má ákvörðunin ekki byggja á mögulegri upptöku eigna á landi Bjarkar eins og skipulagið boðar í dag.
Þegar deiliskipulagstillagan var afgreidd í sveitarstjórn og send inn til auglýsingar í Morgunblaðinu 8. april 2016 hafði undirrituð enga vitneskju um innihald hennar, auglýsingin fór reyndar alveg framhjá eigendum Bjarkar enda töldu þeir sig vera búnir að koma sínum athugsemdum á framfæri og ekki þyrfti að aðhafast frekar að sinni.
Í fundargerð skipulagsnefndar þann 13. júní 2016 var samþykkt að óska eftir sjónarmiðum landeigenda og skipulagsráðgjafa og heimila þeim að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á næsta fundi nefndarinnar áður en athugsemdirnar yrðu teknar til formlegrar afgreiðslu í nefndinni.
En áður en lengra er haldið vill undirrituð benda á að þarna er aðeins verið að bjóða landeigendum Voga 1 að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina þó svo að nýr aðkomuvegur liggi að stærstum hluta yfir jörð Bjarkar. Má benda á c og d liði almennra ákvæða í frumvarpi til skipulagslaga þar sem segir að tryggja beri réttaröryggi og öllum aðilum sé gefin jöfn tækifæri til að hafa áhrif á framgang skipulagsmála. Þegar umræddur fundur var haldinn höfðu athugsemdir eigenda Bjarkar verið á vitorði eigenda Voga 1, sem og öllum öðrum framkvæmdaraðilum deiliskipulagsins eða í u.þ.b. 3 mánuði.
Næsti fundur nefndarinnar var haldinn 28. júní (2016) og var eftirfarandi texti færður til bókar.
„Gerð var grein fyrir sjónarmiðum landeigenda(ath. Voga 1) vegna framkominna athugasemda. Nefndin tekur undir sjónarmið landeigenda og felur skipulags-og byggingafulltrúa í samráði við skipulagsráðgjafa að kynna sjónarmið landeigenda varðandi aðkomuveg að fristundabyggð fyrir Vegagerðinni. Skipulagsnefnd samþykkir að fresta afgreiðslu á athugsemdum til næsta fundar nefndarinnar“. (viðhengi 10)
Í framhaldi af ákvörðun nefndarinnar var fundað með Guðmundi Heiðrekssyni fulltrúa Vegagerðarinnar 30. Júní 2016. Niðurstaða þess fundar barst til Árna Ólafssonar, starfsmanns Teiknistofu Arkitekta, 18. júlí 2016. Í póstinum kom m.a. fram að Vegagerðin reiknaði með að fá nýjan skipulagsuppdrátt til samþykktar“.
Með öðrum orðum, enn var verið að vinna við undirbúning aðkomuvegarins inní hraunið á þessum tímapunkti og lá endanlegur uppdráttur af útfærslu hans því ekki ennþá fyrir þann 18. júlí 2016.
Enn vill undirrituð minna á að samróma afstaða eigenda Bjarkar til staðsetningar aðkomuvegar hafði á þessum tímapunkti legið inni á borði framkvæmdaraðila deiliskipulagsins síðan 16. mars 2016, eða í u.þ.b. 4 mánuði án þess að þeim hafi verið komið til skila eða hlotið umfjöllun í skipulagsnefnd.
Í niðurlagi fundargerðar skipulagsnefndar 22. ágúst 2016 eru listaðar upp breytingar sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir að auglýsing var birt 8. april 2016.
- Nokkrar minni háttar lagfæringar gerðar á greinargerðartexta.
- Ákvæði um útfærslu gatnamóta og samráð við Vegagerð bætt í kafla 4.7.1.
- Vegaslóða að frístundahúsum hefur verið breytt lítillega og byggingarreitir og lóðamörk frístundahúsa aðlöguð eftir því.
Sem sagt allt svo litlar og ómerkilegar breytingar að ekki taldist þörf á að bera þær undir hagsmunaaðila á svæðinu.
„Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki deiliskipulagstillöguna svo breytta, með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan“.
3. Svar skipulagsnefndar:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1 tekur ekki til framkvæmda á grunni gildandi deiliskipulags né þeim verkferlum sem stuðst var við þegar unnið var að deiliskipulagsgerðinni. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

4. Þann 22. September (2016) barst skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps bréf frá Skipulagstofnun. (viðhengi 11)
þar segir að Skipulagsstofnun telji ekki þörf fyrir nýjan aðkomuveg að frístundahúsalóðum yfir hraunið sem nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd, sbr. umsögn umhverfisstofnunnar dags. 10. April 2016.
Skipulagsstofnun benti enn fremur á að umsögn vanti frá Skógrækt ríksins um deiliskipulagið og minnti á að óheimilt væri að rjóðurfella svæði nema með samþykki Skógræktarstjóra.
Fyrir hönd Teiknistofu Arkitekta óskaði Árni Ólafsson eftir umsögn frá Skógrækt ríkisins vegna skógareyðingar sem kunni að hljótast af frekari framkvæmdum og uppbyggingu ferðaþjónustu í landi Voga 1 í samræmi við deiliskipulagstillögu sem arkitektastofan hafði unnið og kynnt var sveitarstjórn Skútustaðahrepps.
Án tillits til þess hvert innihald umsagnar Skógræktarinnar var þá barst hún ekki fyrr en 10. október 2016.(viðhengi 12)
4. Svar skipulagsnefndar:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1 tekur ekki til skógareyðingar á grunni gildandi deiliskipulags en bendir á að fyrirhuguð trjáfelling vegna umrædds tengivegar er minniháttar samkvæmt núverandi áliti fulltrúa Skógræktarinnar dags. 19. nóvember og gefur ekki tilefni til sérstakra aðgerða. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

5. Síðasta bréf Skipulagsstofnunar barst til skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 8. desember 2016.(viðhengi 13)
Í Skipulagslögum nr. 123/2010 segir í 3. mgr. 40. gr. um gerð deiliskipulags, kynning og samráð, er vísað í að halda beri kynningu á skipulaginu eftir að umsagnir allra aðila hafi borist.
Eins og lagagreinin ber með sér skal fyrst leita umsagnar hjá umsagnaraðilum og kynna þær loks fyrir hagsmunaaðilum og öðrum áður en það er afgreitt. Umsagnir varðandi einstaka atriði deiliskipulagsins bárust sveitarfélaginu allt til 8. desember var það loks samþykkt í sveitarstjórn 9. nóvember 2016.
Spyrja má þeirrar spurningar hvort sveitarfélaginu hafi ekki borið skylda til að kynna málið eftir að allar endanlegar umsagnirnir höfðu borist og endanleg útfærsla deiliskipulagsins lá fyrir?
5. Svar skipulagsnefndar:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1 tekur ekki til þeirra verkferla sem stuðst var við að gerð gildandi deiliskipulags en staðfestir að sveitarfélagið lúti þeim lögum og reglum sem gilda og bendir á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé vafi á lögmætri meðferð sveitarfélagsins í skipulagsmálum eða á öðrum sviðum. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

6. Við undirbúning skipulagsins bar sveitarfélaginu að halda í heiðri grunnatriðum eins og kynningu, samráði og auglýsingum, sem sveitarfélagið gerði vissulega upp að ákveðnu marki.
Undirritaðri þykir ljóst að núverandi deiliskipulag, sem nú er fyrirhugað að breyta, var ólöglega unnið á margan hátt. Eigendur Voga 1, sem höfðu frumkvæði að skipulagsgerðinni, sinntu ekki lögboðinni skyldu sinni með því að bera upplýsingar á milli hagsmunaaðila á svæðinu og skipulagsyfirvalda, eins og þeir tóku að sér að framkvæma.
Almennt hafa skipulagsyfirvöld ekki heimildir til að framselja lögbundnar skyldur sínar í skipulagsmálum til einkaaðila, en samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila samkvæmt hans beiðni heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer skv. 40. og 41. Það þýðir að þrátt fyrir að einkaaðili vinni sjálfur að gerð deiliskipulags er það viðkomandi sveitarfélag sem sér um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkir deiliskipulagið.
Ekki verður betur séð en að ábyrgð sveitarfélagsins til upplýsinga hafi verið lítil sem engin við undirbúning skipulagsins, enda voru engin gögn, fundarboð, tilkynningar eða nokkuð annað tengt skipulagsframkvæmdinni sent á undirritaða á árinu 2016.
Aðeins aðkoma sveitarstjórnar og skipulagsfulltrúa getur tryggt jafnan rétt hagsmunaaðila við að koma athugasemdum sínum á framfæri og að þau fái ekki umfjöllun í skipulagsnefnd.
Að mati undirritaðrar var gróflega vegið að réttindum eigenda Bjarkar við gerð deiliskipulagsins. Sú rýrnun sem verður á nýtilegu svæði á lóð Björk 3, með gerð vegslóða yfir landið, skerðir framtíðarmöguleika eigenda lóðarinnar umtalsvert.
Á milli eigenda Bjarkar og Voga 1 er í gildi skv. landskiptum 2005 þinglýstur yfirkeyrsluréttur eftir núverandi aðkomuvegi, ekkert samkomulag liggur fyrir við eigendur Bjarkar um að fallið verði frá þeim rétti í framtíðinni.
Í ljósi þess sem á undan er rakið fer undirrituð fram á núverandi deiliskipulag verði endurupptekið í sveitarstjórn Skútustaðahrepps svo fljótt sem verða má og öllum fyrirhuguðum breytingum og framkvæmdum í Vogum 1 verði slegið á frest.
6. Svar skipulagsnefndar:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Voga 1 tekur ekki til veglagningar á grunni gildandi skipulags né þeirra verkferla sem stuðst var við að gerð gildandi deiliskipulags. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

7. Undirrituð hafnar núgildandi deiliskipulagi frá árinu 2016 og óskum um breytingar sem nú liggja til umsóknar.
7. Svar skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd tekur höfnun á tillögu að breytingu gildandi deiliskipulags ekki til greina án efnislegra raka.

Minjastofnun:
Fornleifaskráning hefur verið unnin á skipulagssvæðinu (Birna Lárusdóttir o.fl. 2000. Fornleifaskráning í Skútustaðahreppi IV. Fornleifar við norðan- og austanvert Mývatn, milli Grímsstaða og Kálfastrandar auk afréttarlanda. Fornleifastofnun Íslands, FS118-96014). Minjavörður kannaði svæðið á vettvangi 6. nóvember síðastliðinn. Engar þekktar fornleifar eru á skipulagsreitnum og hefur Minjastofnun Íslands ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.
Rétt er að vekja athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: „Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.“
Svar skipulagsnefndar:
Lög um menningarminjar verða hafðar til hliðsjónar við útgáfu framkvæmdaleyfis í kjölfar deiliskipulagsbreytingarinnar. Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

Náttúrufræðistofnun Íslands
Náttúrufræðistofnun hefur farið yfir erindið. Breytingin er innan svæðis sem þegar er að mestu skipulagt m.a. vegtengingar og lóðir en einnig er verið að taka nýtt svæði undir byggingarreit. Svo virðist vera að ekki sé samræmi á milli þeirra teikninga sem eru sendar með erindinu og skoðunar á loftmyndum af svæðinu og því erfitt að átta sig á staðháttum. Til dæmis er núverandi vegir ekki sýndir með réttum hætti heldur eingöngu vegir skv. skipulagi og þarf því að leita í eldir gögn til að finna hvað breytingarnar fela nákvæmlega í sér. Þetta hefði mátt vinna betur. Eftir því sem best verður séð er verið að taka tiltölulega ósnortið hraun undir nýja lóð og afar mikilvægt að það sé gert snyrtilega og án alls óþarfa rasks. Samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd væri eðlilegt að sýna fram á brýna nauðsyn þess að taka hraun undir sumarhús/íbúðarhús en Þar sem um er að ræða tilfærslur innan svæðis sem er á samþykktu skipulagi og er því ekki gerðar athugasemdir við tilfærsluna en áhersla lögð á góða umgengni, jarðminjum haldið eins heilum og mögulegt er, og að komið sé í veg fyrir plöntun á framandi tegundum á svæðinu.
Svar skipulagsnefndar:
Öll byggð í Vogum er á hrauni og engin mannvirki verða gerð án þess að þau hafi áhrif á hraunið og umhverfi þess. Skipulagsnefnd er kunnugt um að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, að binda leyfi sem gefin verða út á grunni skipulagsins þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.

Skógræktin:
1. Samkvæmt 19 gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019, þá er varanleg eyðing skóga að hluta eða í heild óheimil. Komi til varanlegrar eyðingar skógar skal framkvæmdaraðili ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið af eyðingu skógarins, með hliðsjón af markmiðum laga þessara, svo sem með endurheimt náttúruskógar eða ræktun nýrra skóga, og skal framkvæmdaraðili leita álits Skógræktarinnar á útfærslu mótvægisaðgerða.
Skógræktin mælist ávallt til þess að ný mannvirki verði reist þar sem ekki þarf að raska skóglendi, hvorki náttúrulegu eða ræktuðu. Sé það hinsvegar talið óhjákvæmilegt og í samræmi við skipulag sveitarfélagsins, þá skal skv. áðurnefndri 19 gr., hefja mótvægisaðgerðir eigi síðar en tveimur árum eftir eyðingu skógarins. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktarinnar: https://www.skogur.is/is/nyskograekt/landsaaetlun-i-skograekt/leyfi-til-ad-fella-skog
Svar skipulagsnefndar:
Skógareyðing vegna fyrirhugaðra framkvæmda á grunni tillögu að deiliskipulagsbreytingu Voga 1 er minniháttar en skilyrði um mótvægisaðgerðir munu fylgja leyfisveitingu til framkvæmda.

Skipulagsnefnd telur að innkomnar athugasemdir gefi tilefni til þess að skilyrði um mótvægisaðgerðir vegna skógareyðingar verði settar sem skilyrði í tillögu að breytingu á deiliskipulagi Voga 1. Skipulagsnefnd leggur til að í greinargerð verði það sett sem skilyrði að húsbygging verði reist í hraunbolla og verði sambærileg hæð þeirra frístundahúsa sem gert er ráð fyrir á svæðinu.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breyttu deiliskipulagi Voga 1 verði samþykkt með áorðnum breytingum og að skipulagsfulltrúa verði falið að senda þeim sem athugasemdir gerðu svör skipulagsnefndar/sveitarstjórnar við þeim og að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Samþykkt

2. Skútustaðahreppur- Gerð deiliskipulags fyrir Höfða - 1810020

Tekin fyrir að nýju tillaga að deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga.
Tilgangur deiliskipulagsgerðarinnar er m.a. að bæta útivistarsvæði Höfða og Kálfastrandar umhverfis Ytrivoga, með því að móta stefnu um framtíð svæðisins, uppbyggingu stíga og áningarstaða og ákvarða forsendur fyrir framkvæmdir og rekstur á svæðinu.
Sveitarstjórn samþykkti þann 23. september 2020 að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa deiliskipulagstillögu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Tillagan var auglýst frá og með 8. október 2020 til og með 19. nóvember 2020.

Athugasemdir/umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ), Fjöregg, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Ingibjörg Björnsdóttir, Landgræðslan, Laufey Sigurðardóttir, Vegagerðin, Minjastofnun Íslands og Umhverfisstofnun.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn:
Almennt séð er tillagan vel ígrunduð og vandlega unnin og gefur ekki tilefni til athugsemda RAMÝ, nema að einu leyti: Í kafla 6.5 á bls. 35 og á skipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir FUGLASKOÐUNARSKÝLI við voginn hjá Klösum. (Staðsetning skýlisins er ekki fastsett.). Hjá RAMÝ er yfir 40 ára reynsla af fuglaskoðun á skipulagssvæðinu. Ekkert bendir til að fuglaskoðunarskýli myndi auðvelda skoðun fugla eða minnka truflun. Veldur þar mestu, að ekki er hægt að ganga að fuglum vísum á einum stað, vogarnir krókóttir og útsýn takmörkuð. Á hinn bóginn eru fuglarnir frekar gæfir og því auðvelt að skoða þá af göngustígum þegar svo ber undir. Skýli til fuglaskoðunar mun því líklega ekki gagnast. Mannvirki af þessu tagi yrði aðskotahlutur í hinu sérstæða, þrönga og afar viðkvæma landslagi, þrátt fyrir ákvæði um stærð og útlit.
Svar skipulagsnefndar:
Staðsetning fuglaskoðunarskýlisins kom til umræðu á opnum kynningarfundi þann 21. september 2020. Helstu rökin fyrir uppsetningu fuglaskoðunarhúss er aðstaða fyrir fuglaskoðara til að athafna sig og undirbúa búnað til ljósmyndunar. Umsögnin verður notuð til hliðsjónar þegar ákvörðun um fuglaskoðunarskýlið verður tekin fyrir.
Arnþrúður Dagsdóttir bókar andstöðu við fuglaskoðunarhús á deiliskipulagssvæðinu.

Fjöregg:
Fjöregg sendi inn umsögn með margvíslegum athugasemdum og ábendingum á fyrra stigi þessa máls og er ánægjulegt að sjá að áformin um skipulag í Höfða og við Ytrivoga hafa að mörgu leyti þróast í þá átt sem félagið lagði til.
Að þessu sinni hefur stjórn Fjöreggs ákveðið að einskorða umsögn sína við fráveitumál. Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir snyrtiaðstöðu á þremur stöðum: Við aðkomuna að Höfða, við Geitabrekku og við Kjartansvog. Þetta sé í samræmi við það markmið deiliskipulagsins að gera ráð fyrir „aðstöðu fyrir ferðamenn og þjónustu við þá, m.a. með salernum ...“ (bls. 26). Fram kemur að gert sé ráð fyrir rotþróm í tengslum við salerni og snyrtiaðstöðu og sagt að rík áhersla sé lögð á að farið sé eftir „ítrustu kröfum“ um hreinsun á skólpi (bls. 32).
Stjórn Fjöreggs telur einboðið að þetta yrðu þurrsalerni. Stofnkostnaður við slíka lausn er minni en við vatnssalerni og rekstrarkostnaður stórum lægri. Þá væri hægt að hafa aðstöðuna opna allt árið en það er hæpið með vatnssalerni vegna frosts. Það sem mestu máli skiptir þó er að engin mengun fylgir þurrsalernum ef rétt er að öllu staðið. Stjórn Fjöreggs efast um að sú lausn sem lýst er í deiliskipulagstillögunni standist kröfur reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp þegar viðtaki er viðkvæmur og nýtur sérstakrar verndar eins og við á um Mývatn. Jarðrask vegna lagna, rotþróa og siturbeða yrði meira en ásættanlegt getur talist á þessu einstaklega viðkvæma svæði. Raunar verður að telja vafasamt að siturbeð komist fyrir. Þurrsalerni eru því að öllu leyti ákjósanlegri lausn. Í Vatnajökulsþjóðgarði hefur þurrsalerni verið í notkun um hríð í Vikraborgum við Öskju og ættu að vera hæg heimatökin fyrir stjórnendur Skútustaðahrepps að afla upplýsinga um reynsluna þar. Þá verða ný salerni við Dettifoss sem þjóna eiga miklum fjölda gesta einnig af þessari gerð.
Svar skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd tekur undir ábendinguna og leggur til að texti um rotþró verði tekin út úr greinargerð. Endanleg útfærsla á salernum hefur þó ekki verið ákveðin. Áður en farið verður í framkvæmdir verða mismunandi kostir skoðaðir með ítrustu kröfur að leiðarljósi.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra:
Markmið með gerð deiliskipulagsins er að vinna skipulag af svæðinu til að móta stefnu um uppbyggingu stíga og áningarstaða og ákvarða forsendur fyrir framkvæmdir og rekstur á svæðinu.
Skipulagssvæðið nær til Höfða (Hafurshöfða) og lands Kálfastrandar umhverfis Ytrivog. Ytri mörk þess eru dregin úti í vatninu og uppi á hrauninu austan þjóðvegar. Á landi er skipulagssvæðið um 38ha, 29 ha vatnsmegin þjóðvegar og 9 ha austan hans.
Allt skipulagssvæðið er innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Mývatn og Laxá voru upphaflega friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxar í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974. Svæðið er nú verndað samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004. Það er því afar mikilvægt að bestu fáanlegri tækni verði beitt til hreinsunar fráveituvatns frá salernum og bílastæðum, sem fyrirhugað er að setja upp á svæðinu.HNE gerir ekki athugasemd að öðru leyti við fyrirhugað deiliskipulag við Höfða og Ytrivoga.
Svar skipulagsnefndar:
Endanleg útfærsla á salernum hefur ekki verið ákveðin. Áður en farið verður í framkvæmdir verða mismunandi kostir skoðaðir með ítrustu kröfur að leiðarljósi í samræmi við lög og reglugerðir er snerta fráveitumál og verndarsvæði Mývatns.

Ingibjörg Björnsdóttir:
Ég hef heyrt að fólk hefur áhyggjur (og ég deili svo sannarlega þeirri skoðun) af því að á þessum fallega stað sem deiliskipulagið nær yfir verði ekkert að sjá eftir 15-20 ár þar sem hágróður verður búinn að skyggja á allt útsýni.
Því velti ég fyrir mér hvort ekki eigi að vera í deiliskipulagsgerðinni áætlun um hvernig eigi að grisja hágróður svo þetta útsýni yfir hraunmyndanir, voga og vatn hverfi ekki á þessum einstaka stað..?
Með þessari hugmynd á ég alls ekki við Höfða sjálfan heldur hins hluta deiliskipulagsins.
Svar skipulagsnefndar:
Í tillögu að deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga segir í kafla 4.7.1: Skógurinn í Höfða er einstakur og saga hans og tilurð merkileg. Skógurinn er „villtur skógur“ ? og á að vera áfram. Nauðsynlegt er að huga að viðhaldi hans og endurnýjun; grisja þarf skóginn á einstaka stað og fella sum tré til þess að vernda útsýni?Lagt er til að gerð verði viðhaldsáætlun um skóginn í Höfða í samstarfi við Skógræktina. Þá verði gerð
áætlun um heftingu gróðurs sem með tímanum spilli landslagi og ásynd á svæðinu umhverfis Höfða.
Deiliskipulagið tekur þannig til grisjunar, ásýndar og útsýnis af svæðinu. Skipulagsnefnd leggur til að í greinargerð verði bætt við að viðhaldsáætlun nái til deiliskipulagssvæðisins í heild.

Landgræðslan:
Landgræðslunni barst til umsagnar deiliskipulag Höfða og Ytrivoga. Landgræðslan hefur kynnt sér skipulagið og byggir umsögn stofnunarinnar á lögum um landgræðslu nr. 155/2018, einkum er lýtur að gróðurvernd, stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðslu eyddra og vangróinna landa, og varna gegn landbroti. Landgræðslan gerir ekki athugasemdir við deiliskipulag Höfða og Ytrivoga en er reiðubúin til að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf um þá þætti er að verksviði hennar snúa, um jarðvegs- og gróðurvernd, uppgræðslu, endurheimt votlendis, varnir gegn landbroti og sjálfbæra nýtingu lands, sé þess óskað.
Svar skipulagsnefndar:
Umsögnin gefur ekki tilefni til svars

Laufey Sigurðardóttir:
3.8.2 Fara gætilega í skógarhögg og einungis eftir ráðleggingum sérstaks fagfólks þ.e. skógfræðinga.
Svar skipulagsnefndar:
Í kafla 4.7.1 segir: Skógurinn í Höfða er einstakur og saga hans og tilurð merkileg. Skógurinn er „villtur skógur“ ? og á að vera áfram. Nauðsynlegt er að huga að viðhaldi hans og endurnýjun; grisja þarf skóginn á einstaka stað og fella sum tré til þess að vernda útsýni?Lagt er til að gerð verði viðhaldsáætlun um skóginn í Höfða í samstarfi við Skógræktina. Þá verði gerð áætlun um heftingu gróðurs sem með tímanum spilli landslagi og ásynd á svæðinu umhverfis Höfða. Með þessu er verið að minna á mikilvægi samráðs við sérfræðinga þegar kemur að grisjun og viðhaldi.

3.9. Vísa í ofangreinda athugasemd um að fara gætilega í skógarhögg og þiggja ráð skógfræðinga.
Svar skipulagsnefndar:
Eins og segir í svari 3.8.2 þá er vitnað í mikilvægi samráðs við sérfræðinga í greinagerðinni.

4.1 Ánægð að stígakerfið hefur verið flokkað og greint. Brýnt að efni til stígagerðar falli vel að umhverfinu og þoli ágang í öllum veðrum.
Ég mæli með að hundar verði ekki leyfðir innan girðingar, hvorki í taumi né lausir. Veit fyrir víst að það var vilji Guðrúnar Pálsdóttur.
Svar skipulagsnefndar:
Tillagan er í samræmi við samþykkt um hunda- og kattahald í Skútustaðahreppi nr. 22/2017 sem segir að lausaganga hunda á almannafæri í sveitarfélaginu sé bönnuð.

4.2.2. Hvað er átt við með „áningastaður“? Vil minna á að í gjafabréfi Guðrúnar Pálsdóttur er kveðið á um að algert bann er við sölustarfsemi þ.m.t veitingasölu. Aðkoman er hluti af upplifun staðarins. Óróleiki og áreiti hæfir ekki á stað sem þessum.
Svar skipulagsnefndar:
Samkvæmt orðabók er merking áningarstaður staður á leið eða ferðalagi, þar sem stansað er til hvíldar og næringar. Ekki stendur til að hefja veitingarekstur á svæðinu. Í kafla 5.1 segir: Öll veitingasala er háð sérstökum leyfum og umfjöllun sveitarstjórnar.
4.3.2. Vísa í athugasemd mína 4.1. Bæti við ósk um að farið verði nærfærnum höndum um allar breytingar eins og reyndar er tekið fram í deiliskipulagi.
Svar skipulagsnefndar:
Í tillögunni segir: Í samræmi við meginmarkmið deiliskipulagsins er lögð áhersla á að bæta möguleika til útivistar og áningar, án þess að gengið sé á náttúru- og menningarleg verðmæti staðarins. Yfirbragð svæðisins skal vernda áfram, en með bættu aðgengi. Gera skal sýnilegri náttúrufarsleg og menningarsöguleg einkenni þess, en skerða ekki fjölbreytni þess.

4.7.1. Nauðsynlegt að grisjun verði í höndum fagfólks.
Svar skipulagsnefndar:
í tillögunni segir: Lagt er til að gerð verði viðhaldsáætlun um skóginn í Höfða í samstarfi við Skógræktina. Þá verði gerð áætlun um heftingu gróðurs sem með tímanum spilli landslagi og ásynd á svæðinu umhverfis Höfða. Með þessu er verið að minna á mikilvægi samráðs við sérfræðinga þegar kemur að grisjun og viðhaldi.

4.8 Tel að garðurinn sé fyrir löngu kominn að eða yfir þolmörk hvað fjölda gesta varðar. Þess sjást víða merki, rætur trjáa standa víða upp úr stígunum. Í rigningu er ásýndin sóðaleg, for, leðja og barmar stíganna færast til. Sjálfsagt að athuga með fjöldatakmarkanir. Engin ástæða til að hafa opið nema yfir daginn eins og í listigörðum almennt. Vísa í bréf Guðrúnar Pálsdóttur til hreppsins þar að lútandi. Athuga hvort setja eigi ákvæði um að loka megi garðinum þegar aðstæður kalla á, t.d. í vorleysingum.
Svar skipulagsnefndar:
Í kafla 4.8 í tillögu að deiliskipulagi er lagt er til að útbúin verði viðhaldsáætlun vegna skógarins í Höfða á grunni aðgangstýringar til þess koma í veg fyrir náttúruspjöll í kjölfar greiningarvinnu sem felur m.a. í sér talningu á svæðinu yfir heilt tímabil. Stefnumótunarákvörðun af þessum toga þarf að vera á rökum reist og byggja á heilsteyptum gögnum til þess að réttlæta kerfisbreytingarnar sem fylgja aðgangsstýringu.

5.10 Veitingasala er alfarið bönnuð samkvæmt gjafabréfi.
Svar skipulagsnefndar:
Deiliskipulagið gerir ekki ráð fyrir veitingasölu en útilokar ekki möguleikann á sölu léttra veitinga vegna viðburða á borð við 17. júní. Í kafla 5.1 segir: Öll veitingasala er háð sérstökum leyfum og umfjöllun sveitarstjórnar.

6.2 Húsið Höfði er barn síns tíma og fullnægir ekki nútímakröfum um einangrun. Óskað er eftir heimild til að gera breytingar á þvottahúsinu, útbúa vistarveru e.k. frístundahús.
Svar skipulagsnefndar:
Framkvæmdir við húsakost Höfða er ekki viðfangsefni deiliskipulagsins.

Annað:
Mikilvægt er að ásýnd og sérstakt andrúm staðarins haldist óbreytt og verði áfram skjól fyrir áreiti.
Fegurðin, kyrrðin, gróðurinn og fuglalífið er og á að vera aðdráttaraflið. Aðkomuhlutir eins og borð og bekkir eða leiktæki hæfa ekki í gamaldags skrúðgarði sem þessum.
Svar skipulagsnefndar:
Ekki er lagt til að sett verði upp leiktæki, bekkir og borð í tillögu að deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga en sett eru fram skilyrði um að útigögn sem gætu komið til falli vel inn í umhverfið, taki mið af staðháttum hverju sinni og myndi sjónræna heild.

Framhald í næsta skjali, sjá hér


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Umhverfisnefnd / 25. febrúar 2021

19. fundur Umhverfisnefndar

Skóla- og félagsmálanefnd / 25. febrúar 2021

23. fundur skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 27. janúar 2021

22. fundur

Skipulagsnefnd / 16. febrúar 2021

31. fundur skipulagsnefndar

Sveitarstjórn / 24. febrúar 2021

55. fundur sveitarstjórnar

Sveitarstjórn / 11. febrúar 2021

54. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 21. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 28. janúar 2021

53. fundur

Skipulagsnefnd / 19. janúar 2021

30. fundur skipulagsnefndar

Atvinnumálanefnd / 24. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Sveitarstjórn / 16. desember 2020

51. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar I/II

Atvinnumálanefnd / 3. apríl 2020

9. fundur

Atvinnumálanefnd / 7. maí 2020

10. fundur

Atvinnumálanefnd / 4. júní 2020

11. fundur

Atvinnumálanefnd / 24. september 2020

12. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. október 2020

13. fundur

Atvinnumálanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. nóvember 2020

15. fundur

Atvinnumálanefnd / 11. desember 2020

16. fundur

Sveitarstjórn / 9. desember 2020

50. fundur

Sveitarstjórn / 27. nóvember 2020

49. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 17. nóvember 2020

28. fundur skipulagsnefndar

Nýjustu fréttir

HAMINGJUKÖNNUN 2021

 • Fréttir
 • 3. mars 2021

Viltu hafa áhrif á sögu Mývatnssveitar?

 • Fréttir
 • 24. febrúar 2021

Störf án stađsetningar

 • Fréttir
 • 23. febrúar 2021

55.fundur sveitarstjórnar

 • Fréttir
 • 22. febrúar 2021

Gildandi takmörkun á samkomum

 • Fréttir
 • 8. febrúar 2021

54. fundur sveitarstjórnar

 • Fréttir
 • 8. febrúar 2021