COVID-19 pistill sveitarstjóra: Viđ munum rísa upp eins og fuglinn Fönix

  • Fréttir
  • 27. mars 2020

Kæru Mývetningar. Ég vil byrja á því að senda öllum þeim sem eru smitaðir af KOVID19 veirunni og eru í einangrun bestu batakveðjur. Vonandi náið þið ykkur sem allra fyrst. Einnig sendi ég öllum þeim sem eru í sóttkví bestu kveðjur, við erum afar þakklát hversu allir hafa brugðist vel við og sýnt ábyrgð í verki. Við hugsum til ykkar og ef við getum aðstoðað ykkur á einhvern hátt þá hikið ekki við að hafa samband við sveitarfélagið.

Sveitarfélagið hefur lagt áherslu á öfluga upplýsingagjöf undanfarnar vikur og við munum halda því áfram. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í morgun föstudaginn 27. mars var ekkert nýtt smit greint í Mývatnssveit annan daginn í röð sem er ánægjulegt. Staðfest smit eru því enn fimm talsins og eru allt starfsmenn á sama hóteli. Í morgun var reglulegur fundur almannavarna og aðgerðarstjórnar með sveitarstjórum. Alls eru 16 smit staðfest á Norðurlandi eystra og um 400 manns í sóttkví. Fram kom að afar mikilvægt er að virða þær reglur og viðmið sem sóttvarnalæknir hefur sett með fjarlægðamörk og samkomubann og forðast ber hópamyndun.

Í gær hafði ég samband við forsprakka þess hóps sem var í Mývatnssveit á dögunum en um 20 manns í hópnum smituðust af KOVID-19 veirunni en ekki vitað hvar það var. Nokkur fjölmiðlaumræða hefur verið um dvöl hópsins sem var hér að njóta náttúrunnar áður en samkomubann var sett á.  Fyrir hönd Mývetninga bað ég forsprakka hópsins fyrir um bestu batakveðjur til þeirra og vonandi sjáum við þau sem fyrst aftur í Mývatnssveit. Veikindin hafa lagst misþungt á hópinn, sem fyrir utan veikindin var hæstánægður með dvölina hér.

Þetta eru stórfurðulegir tímar en ég er þakklátur Mývetningum fyrir samstöðuna og góðar kveðjur. Sveitarfélagið hefur fengið ýmis erindi og verkefni inn á sitt  borð að undanförnu sem við höfum þurft að takast á við og höfum reynt að leysa á farsælan hátt við krefjandi aðstæður. Að loka skólunum og íþróttahúsinu var hárrétt ákvörðun að mati okkar í viðbragðsteyminu, sveitarstjórn og hjá forstöðumönnum. Við þekkjum okkar nærumhverfi hvað best og hér sköpuðust sérstakar aðstæður þegar nokkur smit greindust í einu. Við því varð að bregðast strax. Ég ítreka þakklæti okkar til starfsfólks sveitarfélagsins, íbúa og atvinnurekenda fyrir ábyrg vinnubrögð, yfirvegun og skynsemi.

Fyrstu aðgerðir sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til viðspyrnu vegna KOVID-19 voru kynntar síðasta miðvikudag. Mývetningar eru hvattir til þess að kynna sér þær vel. Sveitarfélagið mun leggja sitt af mörkum eins og kostur er. Verið er að greina betur stöðuna og þar er m.a. beðið eftir nánari viðmiðum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Þá fundaði ég með sveitarstjórum í Þingeyjarsýslum ásamt formanni Framsýnar og atvinnurekenda í morgun til að fara yfir stöðuna. Sveitarfélögin eru í svipuðum aðgerðum. Fram kom að mikilvægt er að veita erlendu verkafólki góðar upplýsingar um stöðuna og rétt sinn. Hefur sameiginlegum fjölmenningarfulltrúa Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings verið falið að koma þeim upplýsingum á framfæri.

Höggið á allt atvinnulíf á svæðinu er afar þungt og sér ekki fyrir endann á því.  En ég er sannfærður um að varnaraðgerðir sóttvarnarlæknis muni skila sér vel og Ísland muni rísa hratt upp eins og fuglinn Fönix. Þegar heimsbyggðin gægist undan smitfaraldrinum og hjól atvinnulífsins fara að snúast að ný verði Ísland með allt sitt víðerni og einstöku náttúrufegurð með eftirsóttustu áfangastöðum heims. Við þurfum því að þreyja þorrann og standa saman fram að því. En það getur tekið sinn tíma.

Gangi ykkur vel.

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 18. maí 2020

Nýr og fullkominn slökkvibíll

Fréttir / 7. maí 2020

Dagskrá 39. fundar sveitarstjórnar

Fréttir / 28. apríl 2020

Ertu í leit ađ sumarstarfi 2020?

Fréttir / 16. apríl 2020

Dagskrá 38. fundar sveitarstjórnar