Rannsóknir á sýnum vegna COVID-19 sem lokið var í gærkvöldi hafa leitt í ljós að ekkert nýtt smit hefur komið í Mývatnssveit því niðurstöður sýnanna reyndust neikvæð. Heildarfjöldi smitaðra í Mývatnssveit í dag 26. mars eru því sem fyrr fimm talsins og allir eru þeir starfsmenn sama hótelsins þar sem hópur gesta var á dögunum sem seinna kom í ljós að reyndust vera smitaðir. Allir starfsmennirnir eru í einangrun.
Tekin hafa verið fleiri sýni og er beðið niðurstöðu þeirra. Smitrakningar eru enn í vinnslu. Nokkrir eru í sóttkví.
Viðbragðsteymi Skútustaðahrepps áréttar að afar mikilvægt er að fólk gæti að eigin sóttvörnum og fari að leiðbeiningum um sóttkví og einangrun. Högum okkur öll í samræmi við samkomubann og gætum að fjarlægðarmörkum. Við erum öll almannavarnir!