Frá sveitarstjóra - Áríđandi upplýsingar vegna covid19 faraldursins

 • Fréttir
 • 20. mars 2020

Kæru íbúar Skútustaðahrepps!

Sveitarfélagið þakkar góðar kveðjur, samstöðu og samhug við þessar erfiðu og krefjandi aðstæður. Fyrsta vikan þar sem samkomubann var sett á er brátt að baki. Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun hjá sveitarfélaginu og talsverðar breytingar hafa verið gerðar á starfseminni til að bregðast við stöðunni. Samantekt á nýjustu aðgerðum má sjá hér að neðan.

Í aðstæðum sem þessu er mikilvægt að hafa viðbragðsáætlun sem við höfum gert, að stjórnendur fylgist vel með gangi mála og séu í góðu sambandi sín á milli og við sérfræðinga okkar, að stjórnendur  séu duglegir að upplýsa starfsfólk og almenning reglulega um gang mála með greinargóðum og áríðandi upplýsingum, að við stöndum öll saman og förum að fyrirmælum og hlúum vel að börnunum okkar og okkar nánustu. Viðbragðsteymi og stjórnendur sveitarfélagsins hafa fundað reglulega í vikunni og munu gera það áfram.

 • Í vikunni hafa komið upp tvö smitmál í Mývatnssveit þar sem ferðamenn sem voru hér á ferð reyndust smitaðir. Í báðum tilfellum hefur verið unnið ákaflega faglega í málunum af smitrannsóknateymi. Ekki hefur verið talin ástæða af smitrannsóknateyminu til að setja starfsfólk á viðkomandi hótelum í sóttkví en engu að síður eru starfsmenn þar sem hafa ákveðið að fara í sjálfskipaða sóttkví. Þá hefur öðru hótelinu verið lokað af eigendum þess sem varúðarráðstöfun.
 • Væntanlega er ekki spurning um hvort heldur hvenær smit stingur sér niður í Mývatnssveit sem gæti leitt til þess að t.d. grunnskóla og leikskóla yrði lokað. Við erum undir þetta búin og hafa kennarar m.a. verið að undirbúa námsefni fyrir heimanám og þjálfa nemendur í fjarfundabúnaði o.fl.

Eins og ykkur er kunnugt um hefur skóladagur Reykjahlíðaskóla verið styttur, skipulag skólastarfs breytt sem og skólaaksturs. Aðgengi utanaðkomandi er bannað. Skólastarfið hefur gengið eins vel og hægt er að búast við miðað við aðstæður. Lögð hefur verið áhersla á góða og markvissa upplýsingagjöf til foreldra/forráðamanna.

Í leikskólanum var skóladagurinn styttur, skipulagi starfsins breytt sem og aðgengi utanaðkomandi bannað. Starfið hefur sömuleiðis gengið með miklum ágætum en þessu fylgir auðvitað talsvert álag fyrir starfsfólk og börnin. Aðskilnaður er á milli leik- og grunnskóla eins og hægt er. Ekki verður rukkað fyrir þann vistunartíma sem skerðist. Lögð hefur verið áhersla á góða og markvissa upplýsingagjöf til foreldra/forráðamanna.

Samantekt á nýjustu aðgerðum:

 • Þórdís G. Jónsdóttir sem hefur umsjón með félagsstarfi eldriborgara, er þessa dagana  í samráði við Rauða krossinn að hringja til eldri borgara í sveitarfélaginu, taka púlsinn á þeim og bjóða fram aðstoð sveitarfélagsins eins og t.d. að fara í búð, Lyfju eða bjóða aðra þjónustu.
 • Þeir íbúar sem óska eftir aðstoð vegna vegna faraldursins eru beðnir að hringja í 4646660 eða senda póst á skutustadahreppur@skutustadahreppur.is. Einnig er hægt að leita til félagsþjónustu Norðurþings sem sinnir henni fyrir Skútustaðahrepp, netfangið þar er hrodny@nordurthing.is, sími 464 6100.
 • Lokað hefur verið fyrir aðgengi að líkamsræktinni fyrir ferðamenn.  Einungis þeir sem eru með gilt aðgangskortkort  (þar með talið Lykilkort) hafi aðgang að líkamsræktinni.
 • Tónlistarkennsla er núna í fjarnámi.
 • Sorpmál  Skilaboð frá Terra (gámaþjónustunni): Öll heimili í sóttkví eða einangrun athugið: Allur úrgangur í óflokkað sorp.
 • Starfsfólk hreppsskrifstofu skiptist að einhverju leyti á því að vinna heiman frá sér. Starfsfólk getur hins vegar alltaf svarað vinnusíma að heiman og er auðvitað í góðu tölvusambandi. Hreppsskrifstofan er lokuð fyrir aðgengi. Síminn er 46 46 660.
 • Næsti sveitarstjórnarfundur verður fjarfundur en búið er að breyta sveitarstjórnarlögum til að heimila slíkt. Einnig verða fundir fastanefnda sveitarfélagsins í fjarfundi.

Ég finn fyrir miklu þakklæti hjá sveitungum okkar hvernig starfsfólk sveitarfélagsins  hefur brugðist við aðstæðum og heldur úti bæði grunnskóla- og leikskólastarfi og góðu upplýsingastreymi. En eins og staðan er núna  tökum við einn dag í einu, við erum að fínpússa viðbrögð okkar dag frá degi.

Frá Almannavörnum -  Samkomubann og börn

Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum.

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

 • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
 • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
 • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.
 • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.
 • Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
 • Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.

Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

 • Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu.
 • Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði.
 • Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.

Viðbrögð við samdrætti:

Samband íslenskra sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd eins og kostur er hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Sambandið hvetur ríkisstjórn og Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir svo þær verði að veruleika. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mun taka þetta fyrir á fundi sínum næsta miðvikudag. Tillögur sambandsins má sjá hér.

 • Í morgun funduðu sveitarstjórar Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings með fulltrúum Framsýnar og atvinnurekenda til að bera saman bækur sínar og verða þeir fundir með reglubundnum hætti. Ljóst er að höggið fyrir atvinnulífið er gríðarlegt, ekki síst hér í Mývatnssveit þar sem búið er að loka flestum hótelum.
 • Þá hefur verið boðað til fundar með ferðarþjónustuaðilum í Mývatnssveit ásamt Framsýn næsta mánudag til að fara yfir stöðu mála í Mývatnssveit og ræða næstu skref.

Ef íbúar hafa góðar ábendingar fyrir sveitarfélagið þá eru þær vel þegnar, hikið ekki við að hafa samband við okkur.

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri


Deildu ţessari frétt