Uppfćrđ Húsnćđisáćtlun samţykkt

  • Fréttir
  • 11. mars 2020

Sveitarstjórn samþykkti uppfærða Húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps fyrir árin árin 2020-2030 sem sveitarstjóri ásamt atvinnumála- og framkvæmdanefnd hefur unnið. Fyrsta áætlunin tók gildi 2018 og var til 10 ára en hún hefur verið uppfærð. Hlutverk húsnæðisáætlana sveitarfélaga er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma.

Fram kemur í uppfærðri Húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps að síðustu tvö árin hefur verið byggt talsvert umfram það sem áætlað var. Búið er að byggja 19 íbúðir sem er svipað og áætlað var að byggja næstu fimm árin. Tvö raðhús með alls átta íbúðum voru byggð í Klappahrauni á seinasta ári.

Í húsnæðisáætluninni segir m.a. að markmið sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er sem fyrr að bjóða upp á fjölbreytta búsetukosti hvort sem valið stendur á milli þess að búa í dreifbýli eða þéttbýli. Í Skútustaðahreppi eru innviðir leikskóla og grunnskóla traustir og geta þeir báðir tekið á móti auknum fjölda nemenda án þess að ráðast þurfi í stækkanir eða frekari nýbyggingar. Þrátt fyrir spá um að íbúum í sveitarfélaginu muni fækka til lengri tíma þarf sveitarfélagið hins vegar að horfa fram á veginn. Miðað við niðurstöður könnunarinnar á meðal rekstraraðila má búast við aukinni eftirspurn eftir vinnuafli og klárlega er eftirspurn fyrir hendi þegar kemur að leiguhúsnæði. Fram undan er óvissuástand þegar kemur að þróun ferðaþjónustunnar og því þarf engu að síður að stíga varlega til jarðar. Helstu áskoranir sem fyrr eru hár byggingakostnaður en engu að síður er búið að byggja talsvert umfram áætlanir síðustu tvö árin, ekki síst vegna þess að sveitarfélagið hafði frumkvæði að því eins og stefnt var að í fyrri húsnæðisáætlun. Mikil uppbygging atvinnulífs hefur verið á svæðinu sem vissulega þrengdi að leigumarkaði og húsnæðisframboði um tíma. Mikilvægt er að tryggja framboð á fjölbreyttum byggingalóðum. Þar sem hafin er endurskoðun á aðalskipulagi er afar mikilvægt að horfa til frekari uppbyggingar og að heildarframboðið á lóðum sé líklegt til að henta vel íbúum á öllum aldri og nauðsynlegri þróun samfélagsins.

Húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps 2020-2030


Deildu ţessari frétt