Áhyggjur af stöđu ferđaţjónustunnar

 • Fréttir
 • 11. mars 2020

Eftirfarandi var bókað á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 11. mars 2020:

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps lýsir áhyggjum af stöðu ferðaþjónustunnar í landinu. Engum dylst sú ógn sem stafar af COVID-19 veirunni og í engu ætti að gefa afslátt af ítrustu kröfum svo hefta megi útbreiðslu hennar. Ljóst er að þær aðgerðir munu hafa mikil áhrif á lífsviðurværi fólks og sér í lagi er staða ferðaþjónustunnar til skemmri tíma þung, ekki síst á landsbyggðinni. Ferðaþjónustan er lang stærsta atvinnugreinin í Skútustaðahreppi og því er ljóst að mikill samdráttur þar hefur veruleg áhrif á afkomu fyrirtækja, íbúa og sveitarfélagsins. Svo gæti farið að forsendur fjárhagsáætlunar Skútustaðahrepps ársins 2020 muni bresta rætist ekki úr ástandinu. Ríkisstjórnin hefur kynnt tímabundnar aðgerðir en betur má ef duga skal. Afar mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og lykil aðilar sem móta efnahagslífið, taki höndum saman til að létta undir við slíkar aðstæður og í framhaldinu að tryggja að langtímaáhrifin verði ekki neikvæðari en þörf krefur með markvissum mótvægisaðgerðum.

Í því samhengi skorar sveitarstjórn Skútustaðahrepps á ríki, sveitarfélög og fjármálastofnanir landsins að grípa til markvissra aðgerða. 

Ríkið:

 • Dregið verði úr álögum á fyrirtæki t.a.m. með tímabundinni niðurfellingu tryggingagjalds og gistináttaskatts.
 • Veittur verði greiðslufrestur og eftir atvikum frekari afsláttur af opinberum gjöldum. 
 • Innleiddur verði tímabundinn sveigjanleiki á vinnumarkaði s.s. með heimildum til að færa fólk tímabundið á atvinnuleysisskrá án áhrifa uppsagnarfrests. 
 • Umgjörð fjármálakerfisins verði endurskoðuð svo það verði í stakk búið til að veita nauðsynlega aðstoð. Í því samhengi má nefna endurskoðun á íþyngjandi eiginfjárkröfum og takmarkað aðgengi að lausafé. 
 • Meiri kraftur en áður hefur verið boðaður verði settur í uppbyggingu innviða sem er vel. En það þarf að gera af krafti og hratt og vel.
 • Styrkir til nýsköpunar- og þróunarstarfs verði stórauknir og sérstaklega litið til dreifðra byggða landsins. 
 • Að undirbúið verði samþætt markaðs- og kynningarátak svo rétta megi kúrsinn í ferðaþjónustu fljótt og vel eftir að faraldurinn gengur yfir. 

 

Sveitarfélög:

 • Lækki gjaldskrár og álagningarhlutfall fasteignagjalda og/eða skoði sértæk úrræði til að létta undir til skamms tíma. Í því samhengi ætti að skoða hvort jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti tímabundna heimild til sveitarfélaga til að lækka álögur án þess að til komi frádráttur á greiðslum til þeirra frá jöfnunarsjóði. Slíkt gæti aukið svigrúm sveitarfélaga til tímabundinna aðgerða verulega. 

 

Fjármálastofnanir:

 • Fjármálastofnanir sýni biðlund og þolinmæði og stilli ávöxtunarkröfu sinni í hóf. 
 • Leiti allra leiða til hagræðingar með það fyrir augum að skapa svigrúm til mótvægisaðgerða til að lækka vexti og koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga eins og kostur er.


Deildu ţessari frétt