Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti þann 21. maí 2019 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi tengivirkis á Hólasandi í Skútustaðahreppi skv. 1. mgr. 41 gr.
skipulaglaga nr. 123/2010. Bygging tengivirkis á Hólasandi er hluti af framkvæmdum við Hólasandslínu 3, sem áætlað er að liggi á milli tengivirkis á Rangárvöllum á Akureyri og fyrirhugaðs tengivirkis á Hólasandi. Jafnframt munu núverandi raflínur milli Kröflu og Þeistareykja tengjast tengivirkinu.
Hólasandslína 3 verður hluti meginflutningskerfis raforku. Tilgangur Landsnets með byggingu línunnar er að auka flutningsgetu og bæta stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi, auka hagkvæmni í orkuvinnslunni með sterkari samtengingu virkjanasvæða og þjóna núverandi starfsemi á Norður- og Austurlandi auk þeirrar uppbyggingar sem reikna má með á næstu áratugum.
Framkvæmdirnar eru einnig mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan lið í styrkingu á veiku flutningskerfi utan suðvesturhornsins. Línan mun bæta afhendingaröryggi raforku til notenda á Norður- og Austurlandi. Markmiðið er að uppbyggingin valdi sem minnstri röskun á umhverfinu til lengri
og skemmri tíma.
Tillöguuppdrættir ásamt greinargerðum munu liggja frammi á skrifstofu Skútustaðahrepps, Hlíðavegi 6, 660 Mývatni frá og með föstudeginum 4. október til og með föstudeginum 15. nóvember 2019. Þá eru tillögurnar einnig aðgengilegar á heimasíðu Skútustaðahrepps: http://www.skutustadahreppur.is
undir Skipulagsauglýsingar (efst á forsíðu).
Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út föstudaginn 15. nóvember 2019. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir
við tillögurnar innan tilskilins frests. Skila skal athugasemdum skriflega til skrifstofu Skútustaðahrepps, Hlíðavegi 6, 660 Mývatni og/eða í tölvupósti á netfangið: gudjon@skutustadahreppur.is. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.
Guðjón Vésteinsson
Skipulagsfulltrúi