Engin vetrarţjónusta á Hólasandsvegi og Dettifossvegi hjá Vegagerđinni - Sveitarstjórn Skútustađahrepps mótmćlir

  • Fréttir
  • 9. september 2019

Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps þann 28. ágúst var eftirfarandi bókað:

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ítrekar fyrri samþykktir sínar um að gera þarf verulegt átak í að lagfæra héraðsvegi í sveitarfélaginu, í samræmi við Umferðaröryggisáætlun Skútustaðahrepps. Þeir eru flestir í mjög slæmu ásigkomulagi. Þó ber að fagna efni sem keyrt var í tvo tengivegi nú í ágúst sem voru illa farnir sem og viðgerð á klæðningu á þjóðveginum við Mývatn.

Sveitarstjórn lýsir jafnframt yfir miklum vonbrigðum með að Vegagerðin hyggst ekki þjónusta Hólasandsveg og Dettifossveg næsta vetur. Verður að teljast með ólíkindum að um leið og búið er að leggja bundið slitlag á Hólasandsveg skuli öll vetrarþjónusta skorin niður. Hólasandsvegur gegnir einnig veigamiklu öryggishlutverki fyrir Mývetninga. Sveitarstjórn skorar á Vegagerðina að endurskoða þessa ákvörðun.

Þá hefur ferðaþjónustan ítrekað kvartað yfir því að Dettifossvegur skuli ekki vera mokaður nema tvisvar sinnum á ári. Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring. Þá mótmælir sveitarstjórn því einnig að Víkurskarð verður ekkert þjónustað í vetur og tíminn verður styttur sem þjóðvegur 1 verður opinn í vetrarfærð.

Sjá bókun: http://www.skutustadahreppur.is/v/20602


Deildu ţessari frétt