Skútustađahreppur kolefnisjafnar rekstur sveitarfélagsins - Gróđursetur tré á Hólasandi í samstarfi viđ Landgrćđsluna

 • Fréttir
 • 27. júní 2019

Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps í gær var samþykkt að kolefnisjafna rekstur sveitarfélagsins og stofnana þess í kjölfar samantektar frá verkfræðistofunni Eflu um kolefnisspor sveitarfélaggsins. Á sveitarstjórnarfundinum var einnig samþykktur samningur við Landgræðsluna um að sveitarfélagið leggi til árlega tré til gróðursetningar á uppgræðslusvæði Landgræðslunnar á Hólasandi sem tekur mið af kolefnisbókhaldi sveitarfélagsins ár hvert og tekur Landgræðslan að sér að aðstoða við að gróðursetja trén.

Í kjölfar sveitarstjórnarfundarins fór sveitarstjórn Skútustaðahrepps á Hólasand og gróðursetti 300 tré til að binda losun ársins 2018 undir leiðsögn Daða Lange Friðrikssonar héraðsfulltrúa Landgræðslunnar.

Samkvæmt reiknivél Kolviðar þurfti Skútustaðahreppur að gróðursetja 300 tré til að binda losun ársins 2018. Gert er ráð fyrir að það taki 60 ár fyrir þessi tré að binda losun ársins. Skútustaðahreppur mun hér eftir leggja til árlega tré til gróðursetningar á uppgræðslusvæði Landgræðslunnar á Hólasandi sem tekur mið af kolefnisbókhaldi sveitarfélagsins ár hvert.

Kolefnisspor er kvarði sem notaður er til þess að sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Mælikvarðinn er samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL), annað hvort fyrir rekstur eða vöru. Við útreikninga á losun GHL vegna stofnana Skútustaðahrepps er notuð aðferðafræði GHP (Greenhouse Gas Protocol). Ríkisstjórn Íslands hefur sett fram það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Kolefnishlutleysi felur í sér að losun GHL er jöfn bindingu GHL, þ.e. að eftir að búið er að lágmarka losunina sé bætt fyrir þeirri losun með bindingaraðgerðum. Samkvæmt kolefnisbókhaldi fyrir Skútustaðahrepp 2018 var kolefnisspor vegna rekstrar stofnana Skútustaðahrepps árið 2018 um 30 tonn af koltvísýringi sem samsvarar losun á 1,1 tonni á hvert stöðugildi.

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, er ákaflega ánægður með verkefnið:

„Við erum ákaflega stolt af því að hafa stigið þetta skref að kolefnisjafna reksturinn okkar sem er í takt við nýsamþykkta umhverfisstefnu Skútstaðahrepps. Við munum jafnframt grípa til mótvægisaðgerða í starfsemi okkar til að draga úr kolefnissporinu. Hólasandur er tilvalinn í þetta verkefni. Landgræðslan er með Hólasand í sinni umsjá en þetta er hálfgerð eyðimörk og um 14 þúsund hektarar að stærð.  Skútustaðahreppur og Landgræðslan eiga nú þegar í samstarfi vegna verkefna á Hólasandi, m.a. vegna fráveituverkefnis þar sem svartvatn verður nýtt til uppgræðslu. Allt vinnur þetta saman því fráveituverkefnið og uppgræðslan á Hólasandi er í raun orðin að umhverfisvænu stórverkefni í Mývatnssveit.”

 

Mynd: Hluti sveitarstjórnar gróðursetti tré á Hólasandi í gær með aðstoð Landgræðslunnar sem er liður í aðgerðaráætlun í kolefnisjöfnun sveitarfélagsins. Frá vinstri: Henrik Lange, Daði Lange frá Landgræðslunni, Helgi Héðinsson oddviti, Friðrik Jakobsson, Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri, Dagbjört Bjarnadóttir, Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir, Arnþrúður Dagsdóttir, Alma Dröfn Benediktsdóttir og Elísabet Sigurðardóttir.


Deildu ţessari frétt

Nýjustu fréttir

73. fundur sveitarstjórnar

 • Fréttir
 • 10. janúar 2022

Flokkum yfir jólin

 • Fréttir
 • 20. desember 2021

72. fundur sveitarstjórnar

 • Fréttir
 • 20. desember 2021

Nú er komiđ ađ álestri hitaveitumćla.

 • Fréttir
 • 7. desember 2021

Tungumálakaffi / Language cafe

 • Fréttir
 • 24. nóvember 2021

Bćtt ţjónusta á Heilsugćslunni

 • Fréttir
 • 22. nóvember 2021

Framkvćmdastjóri Mývatnsstofu

 • Fréttir
 • 12. nóvember 2021