Jón Árni fékk fyrstu Menningarverđlaun Skútustađahrepps

  • Fréttir
  • 18. júní 2019

Á 17. júní hátíðarhöldunum 2019 voru Menningarverðlaun Skútustaðahrepps afhent í fyrsta sinn. Þau komu í hlut Jóns Árna Sigfússonar en Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir, formaður velferðar- og menningarmálanefndar, afhendi verðlaunin fyrir hönd Skútustaðahrepps.

Ræða Ragnhildar:

„Haustið 2018 lagði velferðar- og menningarmálanefnd fram reglur um að menningarverðlaun Skútustaðahrepps verði veitt árlega, á 17. júní, og að handhafi verðlaunanna hlyti styrk frá sveitarfélaginu samkvæmt fjárhagsáætlun hvers árs. Horft er til framlags viðkomandi til menningarstarfs í Mývatnssveit, hvort sem um er að ræða einstakling, hóp eða félagasamtök.

Velferðar og menningarmálanefnd var einhuga um að veita einstaklingi sem í áratugi hefur unnið ötullega að því að auðga tónlistar- og menningarlíf Mývetninga þessa viðurkenningu.

Jón Árni Sigfússon hlýtur því fyrstur Mývetninga menningarverðlaun Skútustaðahrepps. Hann hefur í gegnum tíðina auðgað menningarlíf Mývatnssveitar og verið öðrum fyrirmynd - og er því vel við hæfi að hann hljóti þessi fyrstu menningarverðlaun. Fyrst um sinn átti harmonikan hug hans allan en árið 1970 tók hann að sér að stjórna og spila undir hjá kór Reykjahlíðarkirkju. Í kjölfarið fór hann í nám í orgelleik og kórstjórn og stjórnaði kórnum í rúm 30 ár. Þá tók hann einnig að sér að stjórna og spila undir hjá kór Skútustaðakirkju síðustu árin í þessu starfi. Öflugt kórastarf hefur fylgt Jóni Árna alla tíð og söngferðir um héruðin voru tíðar undir hans stjórn. Aðventukvöldin sem við þekkjum svo vel í dag eru hugarsmíð Jóns Árna og þökkum við honum kærlega fyrir að eiga upphafið að þeim. 

En Jón Árni hefur ekki bara sinnt kórastarfi, því harmonikan er sjaldan langt undan. Jólaböll, skemmtanir af öllu tagi, undirleikur við hvers kyns tækifæri og – hann er enn spilandi! Það er því ljóst að Jón Árni er hvergi nærri hættur gefa til samfélagsins.

Að lokum er afar ánægjulegt að segja frá því að Gunnar Benediktsson, barnabarn Jóns Árna, hefur hlotið styrk frá STEF fyrir útgáfu á sönglögum afa síns. Hlökkum við mikið til þeirrar útgáfu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni og langar því að biðja ykkur um að gefa Jóni Árna gott klapp og fá hann hingað upp og taka við viðurkenningu og verðlaununum."


Deildu ţessari frétt