Glćsileg 17. júní hátíđarhöld í Skjólbrekku

  • Fréttir
  • 17. júní 2019

Hátíðarhöld 17. júní fóru fram í Skjólbrekku í umsjá Kvenfélags Mývatnssveitar og Skútustaðahrepps. Á annað hundrað manns mættu í Skjólbrekku þar sem séra Örnólfur J. Ólafsson sóknarprestur flutti hugvekju. Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri flutti hátíðarræðu dagsins en ræðuna má lesa í heild sinni hér að neðan. Fjallkonan að þessu sinni var Ragnheiður Diljá Káradóttir sem flutti áhrifamikið ljóð með glæsilegum hætti.

Þá voru Menningarverðlaun Skútustaðahrepps afhent í fyrsta sinn. Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir formaður velferðar- og menningarmálanefndar afhendi verðlaunin fyrir hönd Skútustaðahrepps en þau komu í hlut Jóns Árna Sigfússonar sem um áratugaskeið var organsti og kórstjóri í Mývatnssveit og lét mikið að sér kveðja á tónlistarsviðinu. Framlag hans til tónlistarlífs í Mývatnssveit er ómetanlegt. Nánar um það í annarri frétt.

Þá var boðið upp á fría andlitsmálningu og kandífloss og hoppukastalar voru á svæðinu. Að lokum var svo boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð að hætti Kvenfélags Mývatnssveitar. Kynnir var Hilda Kristjánsdóttir.

Mynd: Jón Árni Sigfússon, Ragnheiður Diljá Káradóttir og Þorsteinn Gunnarsson.


Hátíðarræða Þorsteins Gunnarsson, sveitarstjóra, 17. júní 2019:

 Kæru Mývetningar og góðir gestir. 

Gleðilega þjóðhátíð og velkomin í Skjólbrekku. Íslenska lýðveldið fagnar 75 ára afmæli í dag.
Ég vil sérstaklega bjóða börnin velkomin, þeirra sem landið eiga að erfa.
Það er enginn frjáls nema sá sem getur séð fyrir sér sjálfur. Eitthvað á þessa leið sagði Bjartur í Sumarhúsum í Skáldsögu Halldórs Laxnes,  Sjálfstæðu fólki.Við erum lánsöm að búa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem öllum er heimilt að hafa skoðanir og tjá þær opinberlega. Slíkt er ekki sjálfsagt. En lýðræði fylgir ábyrgð og hana verðum við að axla á vettvangi þjóðmálanna. Lýðræðinu verðum við að sýna tilhlýðilega virðingu. Það verður hver að leggja sitt af mörkum til þess að viðhalda lýðræðinu og sjálfstæðinu.
Fyrir 75 árum var lýðveldinu Íslandi valinn stofndagur á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Hann átti stóran þátt í því að sannfæra þjóðina um að hún gæti staðið á eigin fótum. Alþingi ályktaði 25. febrúar 1944 um að slíta formlega konungssambandinu við Danmörku í samræmi við sambandslögin frá 1918 og stofna lýðveldi. Jafnframt ákvað Alþingi að dagana 20.-23. maí 1944 skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla til synjunar eða staðfestingar á ákvörðun þingins. 99,5 prósent þjóðarinnar samþykktu sambandsslitin. 98,3 prósent samþykktu stjórnarskrána. Atkvæðagreiðslan stóð yfir í fjóra daga og var kjörsókn 98,4 prósent.
Eftir yfirgnæfandi staðfestingu þjóðarinnar var Lýðveldishátiðin haldin þann 17. júní 1944 þar sem Alþingi ákvað með formlegum hætti að slíta sambandinu, stofna Lýðveldið Ísland og kjósa forseta. Fyrsti forseti lýðveldins var Sveinn Björnsson. Núgildandi stjórnarskrá, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, var samþykkt af Alþingi með lögum nr. 33/1944 og gekk í gildi við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944. 75 ára saga lýðveldisins hefur verið viðburðarík, stormasöm á köflum, en þrátt fyrir mótbyr þar sem sjálfstæði þjóðarinnar var í hættu, t.d. í hruninu, þá hefur okkur  borið gæfu til að þróa lýðræðisríkið okkar í rétta átt. Við höfum gert mistök en oftar en ekki höfum við lært af þeim. En hver er framtíð íslenska lýðveldisins, ef við horfu til næstu 25 ára þegar við fögnum 100 ára afmæli lýðveldisins 2044?
Í fréttum RÚV í gær var sagt frá undirbúningi þingfunds unga fólksins, 13-16 ára, sem var í Alþingishúsinu og var í beinni útsendingu nú í hádeginu. Markmið fundarins var að ljá ungu fólki rödd og auka áhrif þeirra í samfélaginu, að koma skilaboðum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar. Ungmennin komu sér saman um þrjú málefni sem þau settu á oddinn, sem eru í fyrsta lagi Umhverfis- og loftslagsmál, í öðru lagi Jafnréttismál, og í þriðja lagi Heilbrigðismál og þá sérstaklega forvarnahluti þeirra. 
Ég varð svo yfirmáta ánægður og glaður og fylltist svo mikilli bjartsýni fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, að heyra þessar áherslur unga fólksins.  Að setja þessa þrjá málaflokka, umhverfis- og loftslagsmál, jafnréttismál og heilbrigðismál, á oddinn í samtali sínu við ráðamenn í samfélaginu, sýnir hversu framsýnt og skynsamlegt okkar unga fólk er. Framtíðin er björt, þessi nýja kynslóð mun halda kyndlinum á lofti. Þau verða við stjórnvölinn á 100 ára afmæli lýðveldisins. Vonandi tekist þeim jafnframt að breyta pólitískri orðræðu hér á landi, ekki er vanþörf á.
Mikil vitundavakning hefur orðið í umhverfis- og náttúruverndarmálum og loftslagsmálum. Mývetningar hafa þar verið frumkvöðlar á ýmsum sviðum í gegnum tíðina, nú í seinni tíð með nýjum lausnum í fráveitumálum sem verið er að undirbúa. Þá vinnur sveitarfélagið að því að kolefnisjafna starfsemi sína. Á næsta ári verða liðin 50 ár frá hvellinum, þ.e. Laxárdeilunni og baráttu bænda fyrir verndun Mývatns og Laxár. Deilu sem náði hámarki þegar stífla í Miðkvísl var sprengd í loft upp sumarið 1970. 113 manns lýstu því verki á hendur sér.
„Þetta er svona kannski ein stærsta uppreisn Íslandssögunnar. Og merkileg út af því að hún virkaði líka,“ sagði leikstjórinn, Grímur Hákonarson sem gerði heimildamyndina Hvellurinn. Samstaðan brást aldrei. Þetta voru straumhvörf í umhverfis- og náttúruverndarmálum hér á landi. Við þurfum að halda sögunni á lofti, Laxárdeilan á erindi við framtíðina því unga fólkið þarf að þekkja söguna, þegar framtíð skal byggja að fortíð skal hyggja. Ég hvet Mývetninga til þess að halda þessari sögu á lofti á næsta ári þegar 50 ár  verða liðin frá hvellinum, bjóða jafnvel til málþings til að setja þennan viðburð í sögulegt samhengi.
Í hinu unga íslenska lýðveldi höfum við náð eftirtektarverðum árangri í jafnréttismálum en við eigum engu að síður talsvert í land. Mikilvægt er að viðurkenna ekki einungis réttindi, heldur efla réttindi. Menntun er megin grundvöllur kynjajafnréttis því hún er lykillinn að samfélagslegum breytingum og aukinni þekkingu og færni. Eins og segir í einu af gildum Skútustaðahrepps, Jafnræði, þá höfum jafnrétti, fjölbreytileika og samvinnu að leiðarljósi í okkar daglegu störfum.
Unga fólkið setti einnig heilbrigðismál á oddinn, það hefur áhyggjur af andlegri líðan ungmenna, aðgengi að heilbrigðiskerfinu, aðgengi að sérfræðingum eins og sálfræðingum í skólakerfinu. Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri í forvörnum þegar kemur að ungu fólki. En við þurfum sífellt að vera á varðbergi á þeim vettvangi. Einhver besta fjárfesting sem yfirvöld geta ráðist í hverju sinni er í forvörnum, þar þarf að lyfta grettistaki. Þarna veit unga fólkið hvað það syngur. Á Alþingi unga fólksins í hádeginu ræddu þau einnig um fíkniefnaneyslu og fleiri slíka vágesti. Þar stakk eitt ungmennið upp á því að það ætti að vera skylduáhorf fyrir ungmenni að horfa á myndina Lof mér að falla því það væri besta forvörnin. Ég tek undir það og í raun ætti myndin að vera líka skylduáhorf fyrir foreldra, svo áhrifarík er þessi mynd.
Eitt af verkefnum sveitafélaga er að tryggja aðgang barna og unglinga að fjölbreyttu tómstundastarfi með því að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir sem flesta aldurshópa. Rannsóknir sýna að unglingar sem taka þátt í skipulögðu tómstundarstarfi falla síður fyrir freistingum vímuefna og standa betur félagslega. Forvarnir og forvarnarvinna er rauði þráðurinn í öllu slíku starfi og þessu þurfum við að huga að. Í Mývatnssveit hefur staðið til um hríð að stofna svokallað ungmennaráð og nú er kominn tími til að láta það verða að veruleika, unga fólkinu okkar til heilla.
Ég ætla að ljúka ávarpi mínu með ljóði Jóhannesar úr Kötlum, sem nefnist Ísland.
Ísland er hjarta mitt, rautt eins og blessað blóð, 
það brennur eitt kveld í geislum og verður þá ljóð. 
Ekkert land á eins fíngerð og fögur hljóð, 
– fiðla míns lands er röddin þín, móðir góð. 

Ísland er sjálfur ég, þegar ég brosi bezt
með blikandi vín á glasi og fallegan hest, 
og hún og ég erum bæði í söðulinn setzt
og sumarblómin og fuglarnir hylla sinn gest. 

Ísland er líf mitt: sál mín í sólskinsmynd, 
sóley og fífill, engi, hvammur og lind. 
Úr blámanum stekkur ljóssins háfætta hind
og hoppar niður þess gullna öræfatind. 

Ísland er þetta, sem enginn heyrir né sér, 
en aðeins lifir og hrærist í brjóstinu á mér, 
hver blær frá þess væng sem ljómandi eilífðin er, 
– Ísland er landið, sem framtíðin gefur þér.

 


Deildu ţessari frétt