Umsögn Skútustađahrepps um tillögu til ţingsályktunar um fjármálaáćtlun fyrir árin 2020 - 2024, 750. mál.

  • Fréttir
  • 29. maí 2019

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirætlana ríkisvaldsins að frysta framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2019, 2020 og 2021. Fyrirhugðuð skerðing framlaga jöfnunarsjóðsins, sem nemur samtals um á 3,3 ma. kr., kemur harðast niður á þeim sem síst skyldi. Skerðingin mun því sem næst alfarið lenda á þeim sveitarfélögum þar sem býr um 1/3 hluti íbúa landsins eða á fámennum, dreifbýlum og oft landstórum sameinuðum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Sveitarstjórn mótmælir þessum fyrirætlunum ríkisvaldsins harðlega.

Sama hvar borið er niður í laga- og reglugerðarumhverfi, þá er yfirleitt alltaf skýrt kveðið á um samstarf ríkis og sveitarfélaga, bæði með formlegum og óformlegum hætti. Þetta er grunnstefið í allri nálgun hins opinbera. Undanfarin misseri hafa samskipti ríkis og sveitarfélaga þróast í rétta átt en nú hefur komið þungt bakslag í það með þessum fyrirætlunum ríkisvaldsins.

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir orðrétt: „Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti.“

Því miður virðist þetta ekki vera raunin miðað við einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að frysta framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samstarf ríkis og sveitarfélaga verður að byggjast á fullu trausti milli aðila, almenningi til heilla. Í 11. gr. laga um opinber fjármál segir að ráðherra skuli tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélög um mótun fjármálastefnu og fjármálaáætlunar og undirbúningur að samningagerð við sveitarfélög fari fram í samráði við ráðherra sveitarstjórnarmála. Því miður hefur orðið misbrestur á því.

Í skýrslu verkefnisstjórnar sem skipuð var 2015 og fjallaði um íslenska sveitarstjórnarstigið og skilaði af sér haustið 2017 er fullyrt að það sé almennt mat sveitarstjórnarfólks að rökrétt sé að færa fleiri verkefni til sveitarfélaga sé horft til framtíðarverkefna þeirra. Sveitarfélög séu betur til þess fallin að veita nærþjónustu en ríkið og fleiri verkefni muni efla sveitarstjórnarstigið og skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf um allt land. Þá segir að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er skýr en ramminn utan um þau er óskýr að mati sveitarstjórnarfólks og greint frá  svokölluðu gráu svæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur vakið athygli á. Bent er á að sveitarstjórnarfólk lýsti miklu vantrausti sveitarstjórnarstigsins gagnvart ríkinu og fullyrt er að ríkið taki einhliða og án samráðs ákvarðanir í öllum málum og það skipti litlu máli hvaða ríkisstjórn sé við völd, „samskipti ríkis og sveitarfélaga er eilífur slagur um excel skjöl“.

Eins og verkefnisstjórnin bendir sjálf á vekur þetta athygli ekki síst í ljósi þeirra markvissu samskipta sem komin eru á, m.a. á grundvelli laga um opinber fjármál þar sem lögð er áhersla á aukið og bætt samráð ríkis og sveitarfélaga. Því má til sanns vegar færa að hjá sveitarstjórnarfólki liggi líklega almennt djúpstætt vantraust gagnvart ríkisvaldinu í ljósi sögunnar vegna skorts á fjármagni sem fylgdi verkefnum frá ríki til sveitarfélaga, sem kristallast í deilunum þessa dagana um frystingu á framlögum ríkisins til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Ekki hefur náðst samkomulag við sveitarfélögin um fjármálaáætlun 2020-2024 vegna þessa. Ríkið tekur einhliða ákvörðun um frystingu til jöfnunarsjóðsins, sveitarfélögin rísa skiljanlega upp á afturlappirnar og gamla vantraustið er fljótt að skjóta upp kollinum.

Í sjálfu sér eru engar skýrar leiðir til að leysa úr ágreiningi ríkis og sveitarfélaga af þessu tagi. Löggjafinn getur haldið sínu striki þegar staðfesta á fjármálaáætlun og dregið taum framkvæmdavalds ráðherranna. Sveitarfélögin geta mótmælt opinberlega með bókunum eða umsögnum um fyrirætlanir ráðherra hvað varðar fjármálaáætlunina og þannig reynt að beina pólitískum þrýstingi í allar átt, t.d. í gegnum landshlutasamtökin, með beinu samtali við þingmenn og ráðherra og þeirra pólitíska baklandi, nefndir þingsins eða með því að tala sínu máli í fjölmiðlum hátt og snjallt. En þetta er ójafn leikur.

Að baki þessari ákvörðun ríkisvaldsins um frystingu framlaga í jöfnunarsjóðinn virðist fyrst og fremst liggja einhliða pólitísk ákvörðun sem ekki er byggð á sérstökum rökum heldur fyrst og fremst til þess að skapa sér einhverja samningsstöðu gagnvart sveitarfélögunum. Um leið og ríkisvaldið leggur fram fjármálaáætlun með þessum hætti, þ.e. í óþökk sveitarfélaganna, sem er svo undir Alþingi komið að samþykkja og færa í lög, er í raun verið að virða sjálfstæði sveitarfélaganna að vettugi. Ríkisvaldið gefur samhæfingu fjármála og stefnu opinberra aðila langt nef og gerir lítið úr öllu tali um samstarf og samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Samstarf á að virka í báðar átt, leikurinn er hins vegar frekar ójafn því þetta virkar í raun bara í aðra áttina eftir þetta útspil.

Að öðru leyti tekur sveitarstjórn Skútustaðahrepps undir langa og ítarlega umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaáætlun 2020 -2024 frá 3. maí sl. 

F.h. sveitarstjórnar Skútustaðahrepps
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri


Deildu ţessari frétt