Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti fjárhagsáætlun 2019-2022 á fundi sínum 28. nóvember 2018. Fjárhagsáætlun endurspeglar viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins undanfarin ár til hins betra og ber þess merki að frekari uppbygging er fram undan. Forgangsverkefni næsta árs er stækkun leikskóla, viðhald á eignum sveitar-félagsins, kaup á nýjum íbúðum og komið verður sérstaklega til móts við tvo hópa, þ.e. fjölskyldufólk og eldri borgara:
• Fjölskyldufólki með því að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir í grunnskóla og leikskóla frá og með áramótum.
• Eldri borgurum með því að lækka fasteignagjöld verulega. Í flestum tilfellum falla fasteignagjöld þeirra alveg niður því tekjuviðmið til niðurfellingar og afsláttar hafa verið hækkuð um 38% á milli ára.
Fjárhagsáætlun þessi hefur verið unnin af sveitarstjórn, sveitarstjóra, skrifstofustjóra auk þess sem samráð var haft við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og endurskoðanda.
Fjárhagsáætlunin er unnin út frá markmiðum sem sveitarstjórn setti sér á 5. fundi þann 26. september 2018 en þau eru:
Áfram skal haldið með markmið sem sett voru í fjárhagsáætlun 2018-2021. Rekstur A-hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta, sem jafnframt standi undir framkvæmdum án lántöku. Engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga eða til að auka við handbært fé Skútustaðahrepps. Sem þýðir þá að rekstrarafgangur þarf að vera meiri eða jafnmikill og vaxtatekjur. Handbært fé verði ekki lægra en 100 milljónir króna.
Almennar forsendur fjárhagsáætlunar:
Samkvæmt 64. gr. sveitarstjórnarlaga skulu samanlögð útgjöld vegna rekstrar A-og B hluta ekki vera hærri en sem nemur reglulegum tekjum á hverju þriggja ára tímabili.
Frá því tap varð á rekstrinum 2014 hefur verið viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins. Síðan þá hafa bæði hagræðingaraðgerðir og talsverð tekjuaukning vegna fólksfjölgunar og hækkun fasteignamats breytt forsendum í rekstri sveitarfélagsins til hins betra. Allt stefnir í að reksturinn verði jákvæður fyrir rekstrarárið 2018 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Á þessu ári hefur verið farið í ýmsar framkvæmdir, viðhald og endurnýjun og verður því framhaldið á næsta ári.
Heildartekjur samstæðunnar (A og B hluta) eru áætlaðar 578,5 m.kr. á næsta ári, þar af nemi tekjur A-hluta 548,0 m.kr. Rekstrargjöld samstæðu fyrir fjármagnsliði nemi 510,1 m.kr., þar af nemi rekstrargjöld A-hluta 482,8 m.kr. Fjármagnsliðir nettó þ.e fjármagnstekjur nemi 3,6 milljónum. Rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um 72,0 m.kr., þar af verði rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 69,4 m.kr.
Veltufé frá rekstri samstæðu nemi 110,0 m.kr. sem verður nýtt til fjárfestinga/framkvæmda. Handbært fé frá rekstri samstæðu nemi 53,3 m.kr. Sveitarfélagið greiðir engin langtímalán þar sem þau voru greidd upp að fullu á þessu ári. Framlegðarhlutfall A og B hluta er áætlað 21,1%. Ekki er gert ráð fyrir nýjum langtímalántökum á árinu en gert ráð fyrir vaxtatekjum vegna sölu á hlut sveitarfélagsins í Jarðböðunum og Fjarskiptafélagi Mývatnssveitar fyrr á þessu ári.
Fjárfestingaáætlun 2019:
Helstu framkvæmdir næsta árs verða stækkun leikskóla, kaup á tveimur íbúðum í nýjum raðhúsum í Klappahrauni, gatnagerðaframkvæmdir í Klappahrauni, breytt aðkoma að skólum og íþróttamiðstöð, breyting á fráveitu í húsnæði Reykjahlíðarskóla, leikskólanum Yl og íþróttahúsi, mótframlag vegna fyrsta áfanga við gerð göngu- og hjólreiðastígs frá Reykjahlíð í Voga, endurnýjun stofnlagna hitaveitu á Skútustöðum, viðhald í íþróttamiðstöð, áframhaldandi viðhald í Skjólbrekku og öðrum eignum, nýtt salernishús við Höfða, ljúka við frágang á gámaplani, undirbúningur á heitum potti við íþróttamiðstöð o.fl.
Þá verður farið í uppbyggingu á Hólasandi vegna fráveitumála m.a. með uppsteypu á safntanki í samstarfi við ríkisvaldið.
Aðrar áherslur fjárhagsáætlunar:
Helstu óvissuþættir sem gætu haft áhrif á fjárhagsáætlunina eru samningaviðræður við landeigendur vegna hitaveitumála, viðhaldsþörf íþróttamiðstöðvar og Reykjahlíðarskóla en unnið að úttekt og kjarasamningar hjá flestum stéttarfélögum lausir.
Fjárhagsáætlun 2020-2022:
Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir jafnvægi í rekstri og jákvæðri afkomu samstæðunnar á öllum árum áætlunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir lántökum á tímabilinu og því verður unnið að hagræðingu í rekstri með það að markmiði að halda áfram átaki í viðhaldi og uppbyggingu innviða sveitarfélagsins. Þó ber þess að geta að nokkur óvissa ríkir um fjárfestingar og viðhald og verður fjárfestingaþörfin því endurmetin árlega á gildistíma áætlunarinnar.
Komið til móts við eldri borgara og öryrkja
Álagningarreglur fasteignagjalda verða að óbreyttar á milli ára nema að fasteignaskattur af íbúðarhús-næði, sem eigandi býr í, skal felldur niður/lækkaður hjá elli- og örorkulífeyrisþegum samkv. eftirfarandi reglum:
100% lækkun:
Einstaklingar með tekjur allt að 5.000.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur allt að 6.975.000 kr.
80% lækkun:
Einstaklingar með tekjur á bilinu 5.000.000 til 5.750.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 6.975.000 til 7.750.000.
50% lækkun:
Einstaklingar með tekjur á bilinu 5.750.000 til 6.680.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 7.700.000 til 8.250.000.
Þetta þýðir að í flestum tilfellum falla fasteignagjöld þeirra alveg niður því tekjuviðmið til niðurfellingar og afsláttar hafa verið hækkuð um 38% á milli ára.
Við þetta má bæta að tekjuviðmið vegna heimaþjónustu hafa einnig hækkað sem þýðir að gjaldskráin lækkar talsvert.
Breytingar á gjaldskrá:
Almennt hækka gjaldskrárliðir um 2% frá árinu 2018 sem er um einu prósenti undir áætlaðri verðlagsþróun. Gjaldskrárnar má finna í fundargerð sveitarstjórnar. Tvær breytingar voru gerðar á gjaldskrá Skjólbrekku. Annars vegar var leiga á minni sal (bláa salnum) lækkuð úr 16.500 í 10.000 kr. eða um 40%. Hins vegar verður hér eftir boðið upp á þrif þegar allt húsið er leigt undir stærri viðburði.