Fjölnota hjólabraut tekin í notkun

  • Skólinn
  • 29. september 2017

Fjölnota hjólabraut við Reykjahlíðarskóla hefur verið tekið í notkun en lokið var við uppsetningu hennar í gær. Þrjú fyrirtæki í Skútustaðahreppi lögðu fram myndarlega styrki í verkefnið svo það yrði að veruleika en það eru Jarðböðin, Hótel Reynihlíð og Samkaup. Fyrirtækin lögðu til þriðjungshlut á móti sveitarfélaginu. Þá ætlar ungmenna- og íþróttafélagið Mývetningur að gefa Reykjahlíðarskóla hlaupahjól svo nemendur skólans geti nýtt sér brautina í frímínútum.

Sambærilegar brautir hafa verið settar upp við nokkra skóla á landinu og hafa notið gríðarlegra vinsælda enda hentar hún mörgum hópum, þeim sem eru á hjólum, línuskautum, hjólabrettum, hlaupahjólum, BMX o.fl. Það er líka sérstaklega ánægjulegt að sjá að margir krakkar sem finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum blómstra í þessu samhengi enda býður hjólahreystibrautin upp á hraða,fjör og félagsskap. 

Þessi skemmtilega braut er vottuð með TUV stöðlum sem útileiktæki, geymist vel og auðvelt er að færa hana til. Hún er smíðuð úr veðurþolnum efnum, verður því ekki sleip í rigningu og hentar fyrir alla í fjölskyldunni sem eru 5 ára og eldri. 

Skútustaðahreppur er heilsueflandi samfélag er þessi fjölnota hjólabraut hluti af því verkefni.


Deildu ţessari frétt